<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 20, 2007

Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að við erum sérlega ánægð með skóla snillingsins. Skólinn er ekki síður ánægður með drenginn og í dag fékk hann sérstaka viðurkenningu fyrir námsárangur og góða hegðun. Foreldrarnir eru að springa úr monti.

mánudagur, nóvember 27, 2006


Aftur klikkaði ég á myndavélinni... eða jafnvel myndbandsupptökuvél.

"Mamma sjáðu... Svona labba sumir gæjar!"

Sillywalk sería klukkan hálf níu á mánudagsmorgni, það gerist ekki betra!

miðvikudagur, nóvember 15, 2006

"Mamma sjáðu hvernig ég get hlaupið eins og hestur, svona hlaupa brjálaðir hestar."

Verst að ég var ekki með myndavélina á lofti.

miðvikudagur, október 25, 2006

Stundum slekkur snillingurinn á heyrninni til að þurfa ekki að gera eitthvað sem honum finnst leiðinlegt t.d. fara í bað, fara í föt, fá sér að borða, fara að sofa, læra heima, fara út, eiginlega allt annað en að horfa á Scooby Doo eða leika sér í pleisteisjon. Í dag var svona dagur og eins og pirraðri móður sæmir skammaðist ég í honum fyrir að þykjast ekki heyra í mér. Og svarið sem ég fékk:
"Þú elskar mig samt ennþá."

Hann þekkir mig of vel.




Stolt foreldranna.

föstudagur, júní 09, 2006

Snillingurinn á 7 ára afmæli í dag, til hamingju Leibbalingur!

miðvikudagur, október 05, 2005

"Mamma, veistu hvað löggan á Íslandi notar í staðinn fyrir byssur?"
"Nei, hvað er það?"
"Grenjuköllunarmömmusprey."
"Grenjuköllunarmömmusprey!? Hvað er það?"
"Það er svona sprey sem löggan spreyjar á bófa og þá fara þeir að grenja og kalla á mömmu sína."
"Hvað ertu að segja! Þetta þykir mér merkilegt!
"Ég ætla að verða lögga. Eiga löggur ekki oft frí?"

mánudagur, ágúst 22, 2005

Eftirfarandi færsla birtist á síðu snillingaverksmiðjunnar sunnudaginn 3. október 2004. Auðvitað stóð alltaf til að birta hana hér líka en stundum tekur langan tíma af framkvæma hlutina.

Heimilislífið í hnotskurn
Ég átti erindi í búð eins og gengur og gerist á venjulegum heimilum. Snillingurinn fékk að fara með og við versluðum ýmsar krásir, þ.á.m. þetta fína læri af nýslátruðu. Í fjarveru okkar nýtti heimilisfaðirinn tækifærið og tefldi við páfann en lét það eiga sig að loka að sér á meðan. Í lítilli íbúð eins og okkar er lykt ekki lengi að dreifa sér og þess vegna fitjaði ég upp á nefið og hneykslaðist á fnyknum þegar ég kom heim. Maðurinn minn svaraði því til að það kæmi nú ekki beint ilmvatnsangan úr afturendanum á mér þegar ég sinni kalli náttúrunnar, ég var ekki alveg á sama máli enda sagði vitur maður eitt sinn "sæt er lykt úr sjálfs rassi" og þar að auki sýni ég ALLTAF þá kurteisi að loka að mér. Að þessum umræðum loknum kryddaði ég lambalærið af alkunnri snilld og stakk því svo í ofninn. Hvort fnykurinn umræddi var algerlega gufaður upp eða hvort matarilmurinn yfirgnæfði hann alveg, skal ég ekki segja. Fáeinum mínútum síðar kom kærasta snillingsins í heimsókn. Hún hnusaði út í loftið og spurði svo hvaða lykt þetta væri. Drengurinn svaraði grafalvarlegur:"Þetta er ilmvatnslykt úr rassinum á mömmu minni!"

This page is powered by Blogger. Isn't yours?