<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, október 31, 2003

Leifur á kærustu! Tengdadóttirin tilvonandi er krullhærð blondína með spékoppa. Svona er lífið skrítið í kýrhausnum.

miðvikudagur, október 29, 2003

Á þeim rúma sólarhring sem Gullplánetan var í okkar vörslu, horfðum við 5 sinnum á hana.

laugardagur, október 25, 2003

Við horfðum tvisvar á Gullplánetuna í dag.

fimmtudagur, október 23, 2003

Við Leifur horfðum saman á Stundina okkar í dag. Lína Langsokkur kom þar fram og söng, alltaf jafn skemmtileg. Leifi fannst hún samt eitthvað skrítin og spurði:

"Af hverju er hún með þessa marbletti?"

Ég: "Hvaða marbletti?"

"Æi, svona" sagði hann og benti á kinnina á sér.

Ég: "Þetta heita freknur Leifur minn!"

þriðjudagur, október 21, 2003

Spurningaflóðinu virðist vera að linna og það skrítna er að ég held að ég sé farin að sakna þess. Annars er allt með kyrrum kjörum þessa dagana nema nýju vettlingarnir hans Leifs eru týndir. Ótrúlegt! Þetta gerist alltaf. Ef einhver hefur séð þá þá má sá hinn sami láta okkur vita.

mánudagur, október 20, 2003

Í gær fórum við Leifur í bíó og sáum Kalla Blómkvist, spæjaran síunga. Þetta minnti mig á bíómyndirnar sem ég fór á í þrúbíó með Steina bróður á Sigló. Við mæðginin höfðum semsagt bæði ómælda ánægju af þessari bíóferð.

laugardagur, október 18, 2003

Við mæðginin erum búin að eiga obboslega notalegan dag. Eftir hádegið fórum við á flugsýninguna á Reykjavíkurflugvelli þar sem við hittum Þór og fleiri Sléttukalla. Eftir að við höfðum horft nægju okkar óku feðgarnir saman á sléttuna en mamman fékk að fljúga með Ævari í Laxinum. Þegar við komum aftur í bæinn, fórum við mæðgin á Langó og létum bjóða okkur í mat. Pakksödd fórum við svo á vídeóleigu og liggjum nú í rúminu og horfum á Skúbbí dú.

fimmtudagur, október 16, 2003

Ég fór á foreldrafund í gærkvöldi. Sonur minn er snillingur.

mánudagur, október 13, 2003

Eftir leikskóla fórum við smá rúnt á Álftanes. Við sáum varðskip á siglingu, Garðakirkju og Bessastaði. Ég ók upp að Bessastaðakirkju og við spáðum aðeins í húsin og svo sáum við hrafn á kirkjuturninum. Við það tækifæri fauk spurning dagsins en hún er svona:

"Er þetta kannski Krummi krunkar úti?"

Leifur fór svo í smá heimsókn til Breka vinar síns.

sunnudagur, október 12, 2003

Það eru afmælisveislur upp á hvern dag núna. Í dag var haldið upp á afmælið hennar Emblu og það var sko fjör. Fyrst fórum við mæðginin í Smáralind til að kaupa gjöf og Leifur var sko alveg með það á hreinu að afmælisgjöfin ætti að verða bleik. Hann var duglegur að benda mér á allar bleikar flíkur sem fyrir augum hans urðu en við gengum samt út með annan lit eftir allt saman. Við komum við í snyrtivöruverslun þar sem Leifur kom sér í mjúkinn hjá einni starfsstúlkunni. Lauk samskiptum þeirra með því að hún gaf honum vellyktandi sem passaði ágætlega við sparifötin hans.


Afmælið var stórskemmtilegt, merkilegt samt hvað þessar veislur minna á skírnar- eða fermingaveislur, kræsingarnar eru slíkar og þvílíkar.

Við toppuðum svo helgina með því að fara í mat á Langó. Það var gott!

laugardagur, október 11, 2003

Í dag fórum við í afmælisveislu hjá Stefáni og Þorleifi. Í boði var meðal annars sprungin fótboltakaka (eins og Leifur kallaði hana). Bræðurnir fengu fullt af dótti og var veislan ákaflega skemmtileg, svo skemmtileg að Leifur neitaði að koma með mér heim og Stefán sagði:

"Árný, Leifur sagði að hann langaði að ég ætti sig."
"Ókei!" sagði ég.
"Má ég þá eig'ann?"
"Já."
"Jibbííííííííííííí!!!!!!!!!!!!!"

Leifur fékkst þó á endanum til að koma með okkur heim og þessi stórskrítna fjölskylda ákvað að grilla kjöt í rokinu. Við mæðginin stóðum úti, kappklædd, og sungum "Gráðug kerling" og "Ó mamma gef mér rós i hárið á mér". Ég var pínu tens og áminnti Leif um að standa ekki of nálægt grillinu og kviknuðu þá nokkrar spurningar hjá þeim stutta. Meðal þeirra var spurning dagsins sem hljómar svona:

"Af hverju er eldurinn heitur?"

Obbosí.

föstudagur, október 10, 2003

Jæja góðir hálsar! Leifur er í stuði í dag og hef ég því fengið gusu af spurningum og eru þær margar góðar en þessar tvær standa upp úr (a.m.k. hingað til):

"Mamma, af hverju veist þú ekki allt?"

Hvernig í ósköpunum á maður að svara svona löguðu? Ekki auðveldaði það þegar hann spurði spurningar sem ég held að flesta foreldra kvíði fyrir:

"Hvernig fæðast börnin?"

Með því átti hann við hvaða leið þau koma út úr maganum. Ég svaraði þessu eftir bestu getu og prísaði mig sæla að þurfa ekki að segja honum hvernig börnin verða til. Þegar þar að kemur förum við á bókasafnið og tökum skemmtilegar fræðslubækur um býflugurnar og blómin.

fimmtudagur, október 09, 2003

Leifur fór í klippingu til Bjögga frænda í dag. Hann er núna með svona "fótboltaklippingu". Hvað það er veit nú enginn (a.m.k. ekki ég). Svo fórum við á besta kjúklingastað í heimi og Leifur tók Kentucky-hlaupið sitt, hann er að verða nokkuð góður í því. Þar sem pabbi hans skildi bílinn sinn eftir í vinnunni þá komum við þar við og sóttum hann og fórum svo í kapp við pabba heim (þ.e. við Leifur kepptum en pabbi hans hafði ekki hugmynd um að hann væri í einhverri keppni). Leifur var ofsalega spenntur og leit öðru hvoru aftur fyrir sig og hrópaði: "Bless, bless kálhaus!" Svo hló hann: "tí hí hí ah hah tíh hí hí tí hí hí hí hí!"

miðvikudagur, október 08, 2003

Spurning dagsins: "Mamma, hvernig smíðar maður bíla?"

þriðjudagur, október 07, 2003

"Það er djöfulsa rigning úti!" Sagði Leifur þegar ég sótti hann í leikskólann í dag.

mánudagur, október 06, 2003

Þetta var nokkuð rólegur dagur. Leifur horfði á Harry Potter í hundraðasta og sjöunda skipti á meðan ég var að læra. Guði sé lof fyrir vídeótæki! Stráksi ruslaði að vísu dáltið til en var samt alveg einstaklega þægur og góður drengur í dag. Halelúja!

sunnudagur, október 05, 2003

Leifi þykir ofsalega gaman að leika leik sem gengur út á það að ég á afmæli og hann gefur mér pakka. Þennan leik lékum við hér áðan og fékk ég ótrúlega mikið af legókubbbum og bílum. Þegar ég hafði tekið upp allar gjafirnar (vafðar inn servíettu) ákvað hann að elda handa mér. Hann sótti sér lítinn pott og fyllti hann af kubbum. Þegar kubbarnir voru tilbúnir kom spurning dagsins:

L: Má ég fá svona upphlut?

Með þessu átti hann við hlut til að ná upp matnum, þ.e. ausu eða spaða. Gríðarlega rökrétt nýyrði finnst ykkur ekki?

Þegar upphluturinn var fenginn sagði hann mér að á matseðlinum væri "lambakjötslæri" Hann gaf mér bita af kubbi og snéri honum svo við.

L: Þetta er góðara hérna meginn!

Á: Betra!

L: Já og líka góðara! Þetta er svona sykursaltkjöt, það á að setja mjólk út á það!


Við ykkur sem veltið fyrir ykkur hvernig sykursaltkjöt með mjólk útá bragðast, get ég sagt að það er næstum eins og kjúklingur.


laugardagur, október 04, 2003

Jæja, ég var löt í gær. Þegar við komum heim úr leikskólanum kom Pálmi frændi Leifs og hann fór ekki fyrr en á hádegi í dag. Það var ótrúlega gaman hjá þeim, sérstaklega að vakna klukkan sjö í morgun. Alltaf sama sagan um helgar.

Leifur fór með pabba sínum á rúntinn í dag, fyrst fóru þeir í heimsókn í Þyt, en það er svona flugmódelfélag. Svo fóru þeir á Sléttuna. Það er alltaf jafn gaman. Borðuðum nammi gott lambalæri í kvöldmat og fáum okkur kannski ís á eftir. Skemmtilegur dagur!

fimmtudagur, október 02, 2003

Það er ekki mikið um að vera þessa dagana, leikskóli, borða, sofa, kubba og perla. Smá væl inn á milli þegar maður er orðinn þreyttur. Ekki mikið spurt í dag, bara hvort hann megi þetta eða hitt. Það færist líklega fjör í leikinn þegar nær dregur helgi.

miðvikudagur, október 01, 2003

Það hefur lítið markvert gerst hjá Leifi í dag. Jú, reyndar byrjuðum við í orkuátaki Magga. Svo lærði hann líka gríðarlega skemmtilegan og íþróttamannslegan texta í dag. Textinn á að syngjast við svona "áfram KR" lag (hvaða lið sem er má koma í staðinn fyrir KR, ég held ekki með því, tók það bara svona sem dæmi). Textinn er svona:

"Haukar unnu,
FH datt í tunnu!"

Það skal tekið fram að Leifur er í íþróttaskóla FH.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?