<$BlogRSDUrl$>

þriðjudagur, september 30, 2003

Leifur skipti um skoðun í dag. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, hann er alltaf að því. Það sem gerðist var hins vegar að við fórum í sock shop og hann fór að fikta eitthvað í hvernig sokkunum var raðað upp. Að sjálfsögðu sagði ég honum að hætta þessu fikti en hann sagði þá: "Ég er að skipta um skoðun!" og átti þá við að hann þyrfti að breyta uppröðuninni. Kannski get ég notað þetta til að fá hann til að laga til eftir sig, segi honum bara að fara inn í herbergi og skipta um skoðun! Kannski að ég ætti að fara að skipta um skoðun í stofunni?

Við mæðginin fórum í búðir í dag og eyddum drjúgum hluta af laununum hans pabba í föt á Leif. Hann var að sjálfsögðu alsæll og fannst frábærð að fá að máta í mátunarklefunum, þetta er ekkert djók. Við keyptum m.a. stígvél, ég lét hann fyrst máta nr. 30 en þau voru of lítil á hann.

"Þetta er alveg fáránlegt! Það getur ekki verið að þú þurfir stígvél nr. 31!" Þessi orð lét hneyksluð móðirin falla en það var sama hvað hún fáraðist, bífurnar á barninu minnkuðu ekki og niðurstaðan var sú að fjögurra ára sonur minn fékk stígvél nr. 31! Drengsi var reyndar fljótur að grípa orð mín á lofti og tautaði í sífellu: "Þetta er alveg fáránlegt!" Ég reyndi að snúa þessu mér í hag og útskýra að það væri enn fáránlegra að kaupa of lítil stígvél, ég veit reyndar ekki hvort útskýringin síaðist inn en hann hélt áfram að tauta þessi orð þegar við borguðum, afgreiðslustúlkunni til mikillar skemmtunnar.

Mig langar að benda á útsölu í Útivist og sport sem stendur til 5. október, þar eru barnaútiföt á góðum prís.

Spurning dagsins: "Hvernig festir maður tré?"

mánudagur, september 29, 2003

Spurning dagsins fellur niður í dag þar sem Leifur var ekkert sérstaklega spurull.

Leifur fékk Róbert vin sinn í heimsókn í dag. Þeir fóru inn í herbergi og heyrðist ekki múkk í þeim. Eftir nokkra stund kom Leibbalingurinn ægilega ánægður fram og sagði mér að ég yrði að koma og sjá hvað hann var að gera. Ég elti hann hlýðin og hann sýndi mér sína fyrstu listaverkasýningu, hann hafði fundið kennaratyggjó og myndamöppu úr leikskólanum. Sumar myndirnar eru reyndar á hvolfi en allar eru þær gullfallegar. Kjarvalstaðir hvað!!!

sunnudagur, september 28, 2003

Ekkert lát er á spurningaflóðinu, unglingurinn hefur mikið velt fyrir sér þessu með trén en það er ekki allt. Hann spyr:

"Hvað var dagurinn langur?" "Af hverju var dagurinn svona langur?" "Af hverju kveiknar á ljósastaurum?" "Hver kveikir á ljósastaurum?" "Þegar kveiknar á ljósastaurunum í götunni okkar, kveikna þá líka ljósin heima hjá okkur?"

Ég held að þetta þýði að ég verði að fara að velja spurningu dagsins.

Jæja, þá er nokkuð langur dagur að kveldi kominn. Við höfðum það af að mæta í leikhúsið áður en sýningin byrjaði og það var nokkuð afrek. Leifur skreið í fangið á mér og sat þar megnið af sýningunni, Mikki refur var ekkert skelfilegur og Leifur var ekkert hræddur. Það var svolítið mikið fyrir unga menn að sitja kyrrir allan tímann sem sýninginn tók og hléið var mjög kærkomið. Hins vegar skildi hann ekki af hverju var alltaf verið að færa trén og dótið á sviðinu, hann fattaði ekki að þá var verið að breyta um vettvang atburða og segir það kannski eitthvað um gæðin (eða hvað?).

Að sýningu lokinni brunuðum við í kaffi til Stefáns og Leifur fékk að skoða og prufa nýja playmoið sem frændi fékk í afmælisgjöf.

Foreldrarnir eru algjör skandall! Börnin voru sett út á guð og gaddinn meðan formúlan var tekin út og kjúllinn sem beið eftir að komast í ofninn var ekki étinn fyrr en um hálf tíu, barnið fékk ekki að fara í háttinn fyrr en seint og síðar meir. Þeir feðgar liggja nú inni í rúmi og lesa Brúmma.

Ég hef grun um að Leifur verði ekki jafn hress í fyrramálið og síðustu morgna.

Það er ofsalega mikið sport að ropa sem hæst og að sjálfsögðu er beðist afsökunar á hinn kurteisasta máta á eftir. Leifur sat við eldhúsborðið núna áðan og "ropaði" af öllum lífs og sálar kröftum (þ.e. þar sem búkhljóðin létu á sér standa þá lék hann þau bara). Svona var þetta:

Burp... afsakið!
rourp.... afsakið!
gorp... afsakið!
furp... afsakið!
purpl... afsakið!

Afsökunarbeiðnirnar voru bornar fram af mismikilli innlifun og var dálaglegt að heyra.

Seinna í dag liggur leið okkar í Þjóðleikhúsið og er mikil tilhlökkun í loftinu. Um áttaleytið í morgun vakti Leifur okkur með þessum orðum:

L: "Mamma, erum við að fara í leikhúsið í dag?"
M: "Uml"
L: "Jibbíííí!"

Til hamingju með afmælið í dag Stefán uppáhaldsfrændi!!!!!!!!!! Sjáumst í leikhúsinu!





laugardagur, september 27, 2003

Að undanförnu hefur borið mikið á hegðun hjá Leifi sem ég held að öll börn sýni einhvern tíma; að stíga ekki á strik. Er farið að kveða svo rammt að þessu að nánast ómögulegt er fyrir hann að ganga um gólf hér í íbúðinni og þá sérstaklega í eldhúsinu. Þetta er líka nokkuð erfitt ef við erum að spássera um hellulagðar götur Hafnarfjarðarbæjar, það getur a.m.k. orðið ansi tímafrekt!

Stráksi er gríðarlega gefinn fyrir að hafa "kósí", hann á það stundum til að slökkva rafmagnsljós og heimta að kveikt verði á kertum. Þetta gerðist einmitt þegar við vorum að borða kvöldmatinn áðan og varð niðurstaðan sú að við borðuðum fiskbúðing við kertaljós. Spurning hvort hann er að reyna að skapa rómantík í sambandi foreldranna, maður verður a.m.k. dáltið meyr á svona stundum og við Þór horfumst í augu og skín stolt yfir afkvæminu úr augnaráðum okkar beggja.

Við eignuðumst stafræna myndavél fyrir skömmu og tókum aldeilis til við að mynda afkvæmið. Við höfðum fram að því ekki verið allt of dugleg við myndatökurnar er nú er svo komið að ef Leifur sér glitta í myndavél einhversstaðar þá kemur umsvifalaust upp úr honum "Sííííííssss!", alveg sama hvort myndavélinni er beint að honum eða einhverjum öðrum.

Ef ég læri einhvern tíma að koma myndum inn á svona síðu þá fáiði kannski að njóta afrakstursins.

Nú er kominn tími til að vinir og vandamenn fái að taka þátt í sigrum og sorgum (aðallega sigrum samt) Leifs Þórssonar. Hann er alveg einstakur drengur að öllu leyti.

Þeir sem þekkja til svefnvenja minna verða kannski ekki hissa á að sonur minn virðist eiga mjög erfitt með að vakna á morgnanna á virkum dögum. Þetta á alls ekki við um helgar, þá er unglingurinn kominn upp fyrir allar aldir og reynir með blíðuhótum að fá meðvitundarlausa foreldrana til að sinna sér. Þetta gengur gríðarlega misvel hjá honum en hann er orðinn ótrúlega duglegur að bjarga sér, kann t.d. sjálfur að kveikja á sjónvarpinu til að fylgjast með barnaefninu.

Um þessar mundir eru mjög heimspekilegar vangaveltur í gangi. Yfir fáfróða foreldrana hellast spurningar eins og: "Hvers vegna er dagur?" og "hvar á sólin heima?" Svör óskast!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?