<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, nóvember 30, 2003

Við snillingarnir fórum á stefnumót við fröken Línu Langsokk í gær og skemmtum okkur hið besta. Í hléinu keypti ég Mentos handa okkur, þetta með ávaxtabragðinu. Við settumst aftur í salinn og ákváðum að undirbúa okkur fyrir seinni hlutann með því að fá okkur smá nammi. Snillingurinn tuggði sitt íbygginn á svip og sagði svo:
"Ég hef fengið svona súrefni áður!"

fimmtudagur, nóvember 27, 2003

Snillingurinn er frekar klikkaður í dag. Hann sagði mér það sjálfur þegar ég sótti hann í leikskólann. Ástin ýtir undir útiveru því að þegar við komum heim vildi drengurinn bíða úti eftir að vinkonan kæmi heim, hún beið eftir honum í gær og nú átti sko að endurgjalda biðina. Þau eru saman á deild í leikskólanum og eru farin að eyða nánast öllum tímanum þar saman en það virðist ekki nægja. Nú eru þau komin inn og ég heyri ekki betur en að sonur minn sé að kubba blóm handa dömunni. Rétt í þessu heyrði ég hann segja:
"Nú kemur dáltið klikkað, koddu upp í rúm með mér!"
Ég held þó ekki að það sé ástæða til að ég fari að skipta mér af.

mánudagur, nóvember 17, 2003

Snillingurinn er ákaflega upptekinn af kærustunni þessa dagana og vil helst eyða með henni öllum stundum. Ég held að hún sé álíka upptekin af honum því að ég var í mestu vandræðum með að skila henni heim til sín um kvöldmatarleytið. Við mæðginin fylgdum henni heim og þau vildu fá að hittast aftur eftir kvöldmatinn en mæðurnar aftóku það. Minn maður skoppaði einhvern veginn eins og vælandi gormur heim, um hann fóru undarlegir krampar og sýndist mér hann helst vera að reyna að dansa skrykkdans. Hann er býsna efnilegur. Það styttist í að þau heimti að fá að flytja saman.

Þetta er ekki sonur minn fyrir ekki neitt. Hann veit fátt betra en að borða hakk og spaghettí og það veit auðna mín að það var það allra besta sem ég fékk á hans aldri (og reyndar fram eftir öllum aldri). Það var þó eldað sjaldnar í mínu ungdæmi því ekki voru allir fjölskyldumeðlimir sammála um ágæti þess sem mannafæðu.

Ég get sagt ykkur það að snillin gleymdi ástarsorgum sínum við fyrsta sniff af spaghettíinu sem ég framreiddi í kvöld. Sem betur fer þá eldaði ég nóg í a.m.k. eina máltíð í viðbót og ætla mér að nota það sem vopn í baráttunni við Amor og Eros ef til þess kemur.

fimmtudagur, nóvember 13, 2003

Snillingurinn tók helgina snemma og ákvað að taka sér frí frá foreldrunum. Roskin hjón í Þorlákshöfn tóku að sér uppeldishlutverkið í fáeina daga og má segja að þau hafi fengið að upplifa sitt lítið af hverju. Reyndar er pilturinn frekar auðveldur í uppeldi en það er samt dálítið ekki skemmtilegt að hugsa um krakka sem ælir bara í rúmið manns! Hann fékk semsé netta gubbupest en amma og afi hafa ráð undir rifi hverju og gáfu gaurnum kóka kóla. Það er allra meina bót, snillingnum fannst það vera besta meðal sem hann hafði nokkurn tíma fengið og það þótti ekki verra að það var ekki einu sinni nammidagur! Snilld!

miðvikudagur, nóvember 05, 2003

Ég held að allir verði stundum pínu pirraðir á börnunum sínum og það á sannarlega við um mig. Þær stundir eru þó ansi fljótar að gleymast, ég fatta það oft á dag hvað ég á vel skapaðan og yndislegan son og ég verð alltaf jafn hissa á að við hjónin skulum hafa átt þátt í að búa hann til. Á svona stundum trúi ég á mátt sköpunarverksins og veit að guð er til.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?