<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, janúar 30, 2004

Loksins er komið að því! Snillingurinn fer í leikskólann í fyrramálið og verður eflaust guðslifandi feginn að komast að heiman í smástund. Kærastan hefur verið honum stoð og stytta í veikindunum, stundum hætti hún snemma í leikskólanum til þess að veita vini sínum félagskap og var hennar alltaf beðið með óþreyju. Snillingurinn hefur aldrei verið jafn geðgóður í veikindum og nú, þrátt fyrir kláða og kropp, en það má alfarið þakka því að á hverjum degi hafði hann annan leikfélaga en geðvont foreldri sem er orðið hundleitt á að geta ekki komið sínum feita rassi út úr húsi. Húrra fyrir góðum vinum!

laugardagur, janúar 24, 2004

Hér hefur allt verið með kyrrum kjörum síðustu daga, snillingurinn er með hlaupabólu þannig að við höfum haldið okkur innan dyra. Tíminn hefur liðið við lestur og vídeógláp en einnig höfum við notið félagsskapar tengdadótturinnar glóhærðu og má segja að hún hafi verið í "smitun" hjá okkur. Hér er gríðarlegt fjör þessa stundina þar sem skötuhjúin eru búin að finna upp á leik sem snýst um að henda böngsum upp í loft og sjá hvar þeir lenda. Þessum leik fylgja miklar upphrópanir og stundum er það algjörlega yfirþyrmandi en mikið óskaplega er móðirin fegin að þurfa ekki að hafa ofan af fyrir barninu allan liðlangan daginn.

föstudagur, janúar 16, 2004

Litli, snjalli snillingurinn er alltaf jafn ljúfur og góður (eins og hann á ættir til). Hann eyðir mestum frítíma sínum með unnustunni og fékk meira að segja að gista heima hjá henni um síðustu helgi. Ég er farin að hugleiða hvort ég eigi að hafa einhverjar áhyggjur af þessu en ég held að það sé langbest að sleppa því. Ég ætti kannski frekar að bjóða foreldrum prinsessunnar snillinginn til ættleiðingar? Nei, ég tími því ekki.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?